Svanhildur bloggar

október 28, 2009

Frá ullarsokkastemmningu á heilagri Ólafsgötu á allraheilagamessuskákmót í Stokkhólmi

Filed under: Uncategorized — Svanhildur Kristín Sverrisdóttir @ 22:46

AllSaintsAllSaintsAllSaintsAllSaintsAllSaintsAllSaints

Ég er komin í rétta gírinn og nú les ég og skrifa frá morgni til kvölds. Gengur best að vinna heima á Ólafsgötunni. Suma dagana nenni ég ekki úr ullarsokkunum og ligg bara í sófanum í vinnuherberginu (gestaherberginu) mínu með tölvuna á maganum og bækur allt í kringum mig. Lest mest um námskrárfræðin og ætla að reyna að afgreiða þann kafla hér úti. Kannski ekki alveg laus við samviskubit yfir því að vera ekki félagslyndari og fara á uppákomur á vegum skólans og þess háttar. Hef verið löt við það undanfarið. En helstu skyldur mínar núna eru að lesa og skrifa og sjá til þess að einhver næring fari ofan í mig og soninn – og ég stend mig vel í þessu öllu. Þetta gæti varla verið huggulegra líf. Verst finnst mér að þurfa að fara heim um áramótin en hjá því verður ekki komist. Þótt Erasmus-styrkur hafi komið sér vel þá er hann nú eins og dropi í hafið meðan krónan okkar er á gjörgæslustigi. Það er allt óheyrilega dýrt; lestarferðir, kaffihús, bíó, matur og aðrar nauðsynjavörur. Ég bý enn að íslenska fisknum sem mamma kom með hingað út í kílóatali þegar hún heyrði að laxinn kostaði álíka mikið og lambafilé eða hreindýrakjöt – eða hvað það nú annars var.

Ég og unglingurinn minn erum að fara til Stokkhólms á morgun. Þar er að hefjast skákmót og ég ætla að vera fylgdarmaður eins og á árum áður. Hægt er að sjá heimasíðu mótsins hér: www.stockholmschack.nu. Mótið stendur fram á sunnudag og kannski við skoðum gistingu á farfuglaheimili nálægt skákstað ef umferðirnar dragast langt fram á kvöld. Síðasta lestin til Uppsala fer kl. 23.10 og ég þekki ekki ferðamöguleika eftir það.

Skák

Á skákstað. Ég er þarna í öftustu röð.

október 20, 2009

Þvottakvöld – eða öllu heldur „I define postmodernism as incredulity toward metanarratives“

Filed under: Uncategorized — Svanhildur Kristín Sverrisdóttir @ 20:46

 Í kvöld þvoði ég þvott sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þvottahúsið sem ég hef afnot af er í nokkurs konar neðanjarðarbyrgi hinum megin við götuna. Ég skrái á blað sem hangir við þvottahúsdyrnar hvenær ég vil hafa afnot af þvottahúsinu og tek frá tvær klukkustundir í senn. Frábær aðstaða, þrjár þvottavélar, tveir þurrkarar, þurrkklefi, strauvél, straubretti, borð til að leggja frá sér meðan brotið er saman, þrjár þvottagrindur á hjólum – sem sagt allt sem einn doktorsnemi getur hugsað sér til að þvo þvott af sér og syninum. Milli íbúðarinnar minnar og þvottahússins eru 157 skref og 52 tröppur. Þessar fimm ferðir mínar í kvöld gera því samtals 1570 skref og 520 tröppur. Vanalega duga þrjár ferðir eða 942 skref og 312 tröppur en í kvöld byrjaði ég á því að gleyma lykilinum heima þegar ég fór fyrstu ferðina og ég fór aukaferð eftir honum. Þegar ég fór til að setja í þurrkarann áttaði ég mig á því þegar ég var komin upp í íbúðina mína aftur að lykillinn af þvottahúsinu hafði orðið eftir og ég þurfti því að fá lánaðan lykil hjá nágranna og fara aukaferð eftir mínum lykli.

Áður en þvottaferlið hófst hafði ég setið við tölvuna frá því klukkan rúmlega níu í morgun til klukkan sex svo það var kannski ekki von á góðu. Auk þess er textinn sem ég er að lesa hálfgert torf – eða ég bara svona léleg í ensku. Hvernig þýðir maður t.d. þetta?: „I define postmodernism as incredulitly toward metanarratives.“

„Bless you for reading this.“

Tröppurnar mínar

október 16, 2009

Gleðileg jól

Filed under: Uncategorized — Svanhildur Kristín Sverrisdóttir @ 23:17

Í dag var jólastemmning í Uppsölum. Við mæðgurnar þrjár fórum í bæinn og keyptum hátt í þrjátíu gjafir. Ef

Jólagjafir á leið í flug

Jólagjafir á leið í flug

eitthvað er að marka baðvigtina á heimilinu vega þær einungis um sex kíló, innpakkaðar. Mér finnst reyndar yfirleitt ekkert að marka þessa vigt. Ég pakkaði öllum mínum inn og setti á þá merkimiða. Eina vandamálið var að ekki var kominn jólapappír í búðirnar, svart eða bleikt var það sem var í boði, og í staðinn fyrir jólatónlist spiluðu þeir Emilíönu Torrini og Jóhönnu okkar. Þær eru orðnar svo ofsalega frægar, segir Siggamma. Ég er búin að líta nokkrum sinnum á dagatalið í kvöld til að fullvissa mig um að það sé ekki 23. desember. Pakkarnir eru komnir í ferðatöskuna hjá Siggömmu sem fer heim á sunnudaginn. Á morgun fara nafna og Edda heim til Danmerkur.  Eftir þessa helgi mun ég líklega geta lesið og skrifað í guðs friði fram á aðfangadag.

október 9, 2009

Laufblöðin falla

Filed under: Uncategorized — Svanhildur Kristín Sverrisdóttir @ 21:18

Á sjöunda áratugnum þegar ég bjó í Austurbænum í Kópavogi, og Linda vinkona enn í Vesturbænum, söng ég hástöfum á leiðinni úr skólanum:

Laufblöðin falla,
Kjartan með skalla,
kennir að góla,
í Kópavogsskóla

Sem ég hjóla hér um Uppsali alsæl á hjólinu sem ég fékk í afmælisgjöf um árið syngjandi lagið um hann Kjartan, ásamt ýmsum fleiri frá sokkabandsárum okkar Lindu,  finnst mér alveg merkilegt hvað lítið hefur breyst; Kjartan er að vísu hættur að kenna í Kópavogsskóla en ég er enn á hjóli, er enn að læra, ég er enn bara rétt um einn og sextíu, ég er enn ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór – og enn falla laufblöðin á haustin.

 

Osló - Uppsala 057

Sigga amma að athuga tölvupóstinn.

 

Hér hafa fjölskyldumeðlimir verið á ferð og flugi. Sverrir fór í ferð á skákmót til Osló og aðra til Íslands. Ég fór ferð til Lysebu við Osló á samstarfsfund í Nordspråk, Sigga amma kom út, Ingólfur fór heim og nú eru Edda og Svanhildur Lea komnar líka að heimsækja ömmu og langömmu. Þetta er afskaplega notalegt allt saman og alltaf nóg pláss á Ólafsgötunni ef fleiri vilja njóta sín hér á þessum yndislega stað.

Norrænir ritstjórar á fundi í Lysebu
Norrænir ritstjórar á fundi í Lysebu.

 

 

  

 

Larson
Í rúminu með Larsson.

 

 

Sænskunáminu miðar eitthvað áfram, ég er aðminnsta kosti búin að lesa þriðju bók Stieg Larson, Luftslottet som sprängdes, á sænsku. Það hefði ég ekki gert fyrir nokkrum vikum. Ég vona að sú fjórða, sem mér skilst að hvíli ókláruð í tölvu ekkjunnar, Evu Gabrielson, komi út einhvern daginn. Ég var nú eiginlega komin með nagandi samviskubit yfir því að hafa ekki stafla af fræðibókum á náttborðinu meðan þessi lestrarósköp stóðu yfir svo það er að sumu leyti eins og þungu fargi sé af mér létt – enda bókin rúmlega 700 síður.

Í síðustu viku fór ég á móttöku hér við háskólann. Doktorsnemum við allar deildir háskólans var boðið ásamt  gestakennurum. Að lokinni stuttri kynningu var boðið upp á svolítið vínsull og síðan fengum við að hlusta á frábæran fyrirlestur um sögu háskólans og málverkin sem prýða veggi hans. Að því loknu beið okkar matarhlaðborð í Café Alma í kjallara skólans. Glæsilegar móttökur fannst mér. Og svo var afskaplega notalegt að sjá þarna einn af ,,krökkunum” úr sænskutímunum og komast að því  að amerísku hjónin sem ég sat til borðs með búa líka á Ólafsgötu 2, á sömu hæð og ég.  Heimurinn er ekki stór hér í Uppsölum frekar en á Íslandi.

Annars líða dagarnir hratt við tölvuna og með einstaka heimsóknum í kennslustundir hjá Heimi eða lektorum hér við skólann. Í næstu viku fer ég með Heimi í rútuferð í menntaskólaheimsókn og í nóvember mun ég skoða bæði grunn- og framhaldsskóla hér í Uppsölum. Og eftir eina viku eða svo verðum við Sverrir líklega bara tvö hér á Ólafsgötunni fram í desember. Þá verð ég vonandi búin að ná almennilegum tökum á þessu bloggsístemi. Nú gengur eitthvað illa að koma myndunum fyrir á sínum stað.

Bloggaðu hjá WordPress.com.